Sjálfseignarstofnun um fasteignir Skálatúns
28. september 2023
Mynd tekin við undirritun samninga 25. maí 2023.
Skálatún var rekið af IOGT á Íslandi sem hefur hætt þeim rekstri og ánafnað fasteignir og lóð Skálatúns til nýtingar í málefnum barna og fjölskyldna.
Stofnuð verður sjálfseignarstofnun um fasteignir Skálatúns og verður framsal lóðaréttinda til sjálfseignarstofnunarinnar bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna.
Hinn 25. maí 2023 var skrifað undir viljayfirlýsingu milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Mosfellsbæjar sem lýtur að því að stofnanir ríkisins sem sinna málefnum barna, samtök sem vinna í þágu barna og aðrir þjónustuaðilar barna, verði staðsett að Skálatúni í nokkurs konar miðstöð barna.
Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.
Harladur Líndal Haraldsson, formaður stjórnar, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, meðstjórnandi og Regína Ásvaldsdóttir, meðstjórnandi.