
Við erum Farsældartún
Allt frá árinu 1954 hefur verið veitt þjónusta á svæði Farsældartúns í Mosfellsbæ. Á þeim tíma var um að ræða þjónustu við fatlað fólk sem hafði búsetu á svæðinu. Í upphafi var um að ræða börn en þjónustan breyttist svo með tíðarandanum og aðeins hefur verið um að ræða búsetu fullorðinna einstaklinga síðustu árin. Svæðið nefndist þá Skálatún og var rekið af samnefndri sjálfseignarstofnun og IOGT á Íslandi.
Árið 2023 urðu breytingar á starfseminni á þann veg að IOGT á Íslandi og Skálatún, sjálfseignarstofnun, hættu aðkomu að þjónustu við íbúa á svæðinu og Mosfellsbær tók yfir þá starfsemi. Samtímis var ákveðið að, þá óstofnuð, sjálfseignarstofnun tæki við eignarhaldi og rekstri fasteignanna á svæðinu. Sú sjálfseignarstofnun var stofnuð síðar á árinu 2023, nefndist þá Skálatún, sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna, og tók við eignarhaldi og rekstri fasteignanna undir lok ársins.
Hin nýja sjálfseignarstofnun tók við eignunum frá IOGT á Íslandi með þeim formerkjum að á svæðinu yrði aðeins veitt þjónusta í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna. Ákveðið var einnig að ekki kæmi til þess að nýir aðilar flyttu inn á svæðið til að þiggja þjónustu á vegum Mosfellsbæjar með þeim hætti sem verið hafði, en þeir íbúar sem þegar bjuggu á svæðinu fengju að halda áfram búsetu sinni þar. Hafist yrði handa við að breyta svæðinu í þjónustusvæði fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur.
Í stjórn hinnar nýju sjálfseignarstofnunar voru skipuð: Haraldur Líndal Haraldsson, stjórnarformaður, Regína Ásvaldsdóttir, meðstjórnandi, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, meðstjórnandi. Sóley Ragnarsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri stofnunarinnar í nóvember 2023.
Hin nýja sjálfseignarstofnun hélt nafnasamkeppni sem var opin öllum almenningi í febrúar árið 2024 þar sem um og yfir 180 tillögur bárust að nafni fyrir svæðið. Nafnið Farsældartún varð hlutskarpast að mati sérskipaðrar dómnefndar og hlutu þrjár konur, er lögðu til það nafn, peningaverðlaun og viðurkenningu. Í kjölfarið hóf stofnunin það ferli að breyta nafni sínu og svæðisins til samræmis við vinningstillöguna. Dómnefnd var skipuð Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, Önnu Sigríði Guðnadóttur, bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ og Ragnari Jónssyni stofnanda auglýsingastofunnar TVIST.
Farsældartún á að byggjast upp sem hlýlegt og fallegt umhverfi fyrir þá þjónustu sem þar verður veitt af hálfu opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila. Hver sú þjónusta sem varðar börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra getur átt pláss á svæðinu, en nábýli mismunandi þjónustuveitenda og sérfræðinga er ómetanlegt þegar tilgangurinn er að veita barni og þeirra nánustu þjónustu með heildstæðum hætti líkt og fjallað er um í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 sem tóku gildi árið 2022. Upphaf verkefnisins er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Í mars 2024 hófst vinna við deiliskipulag svæðisins með þeim hætti að auglýst var eftir teymum sem gætu tekið að sér að deiliskipuleggja svæðið í samstarfi við sjálfseignarstofnunina Farsældartún og þá helstu aðila sem hyggjast flytja á svæðið þegar það verður uppbyggt. Sú vinna stendur nú yfir en stefnt er á að henni ljúki haustið 2024.
Áhugasömum um svæðið er bent á að hafa samband við Farsældartún.